Saga

Skoða sem PDF skjal
Prentvæn útgáfa
Senda í tölvupóst
Skrifað af: Administrator
Mánudagur, 11. maí 2009 16:41

Saga G.RUN nær yfir 60 ár og er að mörgu leyti samofin sögu og vexti Grundarfjarðar sem samfélags sem byggir afkomu sína á auðlindum hafsins.

1947

Útgerðafélagið Runólfur hf. stofnað utan um rekstur trébáts sem Guðmundur Runólfsson  og fleiri létu byggja fyrir sig á Norðfirði. Báturinn fékk nafnið Runólfur SH-135.

1960

Trébáturinn Runólfur SH-135 seldur en í hans stað keyptur 115 brúttólesta stálbátur, með sama nafni, búinn kraftblökk. Bátinn hafði Guðmundur Runólfsson og fleiri aðilar látið smíða í Risör í Noregi.

1972

Guðmundur Runólfsson útgerðarmaður skrifar undir samning við skipasmíðastöðina Stálvík hf. um smíði á 47 metra löngum skuttogara, sem einnig bar nafnið Runólfur SH-135.

1974

Félagið Guðmundur Runólfsson hf. stofnað hinn 18. desember. Starfsemi félagsins í upphafi var útgerð og rekstur netaverkstæðis. 

1975

Skuttogarinn Runólfur SH-135 kemur í fyrsta skipti til Grundarfjarðar hinn 19. janúar. Í þau rúm tuttugu og þrjú ár sem skipið var í eigu félagsins landaði það hjá Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar, síðar Sæfangi hf., auk þess sem skipið sigldi með afla á markaði erlendis.

1993

Um rekstur frystihússins í Grundarfirði sá félagið Sæfang hf. en það félag var í eigu sömu aðila og Guðmundur Runólfsson hf. Þann 30. september 1993 voru þessi tvö félög sameinuð og varð þá  til eitt fyrirtæki sem stundaði veiðar, vinnslu og rekstur netaverkstæðis, undir nafninu Guðmundur Runólfsson hf. Við sameiningu Guðmundar Runólfssonar hf. og Sæfangs hf. var mörkuð sú stefna að byggja upp öfluga bolfiskvinnslu félagsins í Grundarfirði.  Bolfiskvinnslan er meginstarfsemi fyrirtækisins og er stöðugt unnið að endurbótum á henni.  Þær endurbætur miðast við að auka afköst, hagræðingu og gæði vinnslunnar og ná þannig fram aukinni arðsemi af starfseminni.

1996

Fyrirtækið kaupir togarann Hring SH 535. Hann var í fyrstu gerður út á veiðar utan lögsögu Íslands enda ekki með veiðileyfi í íslenskri lögsögu.  

1998

Í maí var togarinn Runólfur SH 135 seldur til Rússlands og veiðileyfi og veiðiheimildir hans fluttar yfir á Hring SH 535.  

1999

Í desember festi félagið kaup á skipunum Heiðrúnu GK 504 og Þór Péturssyni GK 505, sem nú heitir Helgi SH 135, ásamt þeim veiðiheimildum sem þeim fylgja.

2009

Tekið upp nýtt merki félagsins og opnaður nýr vefur með nýju útliti. Aukin áhersla er lögð á að afurðir félagsins innihalda engin aukaefni og eru umbúðir merktar  með sérstöku merki til að draga fram þann eiginleika vörunnar.


Síðast uppfært ( Fimmtudagur, 04. júní 2009 20:02 )

Guðmundur Runólfsson hf. - Sólvöllum 2, 350 Grundarfjörður, Iceland - Sími/Tel. +354 430 3500